Sagan

Á Hunkubökkum hefur verið rekin ferðaþjónusta óslitið síðan 1974. En sagan hefst þegar hjónin Hörður Kristinsson og Ragnheiður Björgvinsdóttir byrjuðu að bjóða ferðalöngum gistingu og morgunmat við opnun hringvegarins, þegar ferðast var um landið. Í fyrstu voru einungis 3 herbergi inn á bænum.

Tilurð bæjarnafnsins.
Sagan segir frá því að bóndi sá er fyrstur reisti sér bæ hér dreymir að til sín komi álfkona. Biður hún hann að nefna bæ sinn eftir sér. Hún eigi engin börn og vilji ei að nafn sitt gleymist en Hunka heitir hún. Nefndi hann þá bæ sinn Hunkubakka þar eð hann stendur á bökkum Skaftár. Hóll sá er hún býr í ber einnig nafnið Hunka en hann stendur ofan við bæinn.

Fyrir Skaftárelda stóð Hunkubakkabærinn alveg við brekkufótinn ofan við Skaftá. Sér enn til tóftanna en þær eru nú óðum að hverfa í ána. Það var svo þegar eldflóðið geystist austur eftir farvegi Skaftár að ábúendur ( Margrét Ingimundardóttir og Páll Ólafsson ) fluttu bæ sinn hátt upp í hlíðina.

Skaftáreldar og móðuharðindin.

Miklar náttúruhamfarir af völdum eldgosa og jökulhlaupa hafa í gegnum aldirnar mótað landslag og mannlíf héraðsins. Árið 1783 rann mikið hraunflóð úr Lakagígum á Síðumannaafrétti, þekkt sem “Skaftáreldar”. Er það talið eitt hið mesta hraunflóð sem runnið hefur á Jörðinni í einu gosi.

Hraunstraumarnir fylltu gljúfur Skaftár og Hverfisfljóts og runnu þar til byggða í tveimur hraunfljótum og breiddust svo út yfir láglendið. Hraunið tók af marga bæi og eyddi stórum landsvæðum í byggðinni. Öskufall varð mikið og afleiðingar eldgossins urðu skelfilegar fyrir íbúa héraðsins og landsmenn alla. Þetta tímabil hefur verið nefnt “Móðuharðindin”. norðaustanverðum Bandaríkjunum varð móðunnar einnig vart. Thomas Jefferson, síðar forseti Bandaríkjanna, var mikill áhugamaður um veðurfræði og hélt nákvæma skrá yfir hitastig á þessum árum. Samkvæmt mælingum hans kólnaði mjög síðsumars 1783 og næstu þrjú árin voru óvenju köld. Veturinn 1784, var til dæmis 4,8 °C undir meðaltali þessa árstíma. Til samanburðar má nefna að árs meðalhiti hér á landi er um 5°C. Þannig var höfnin í New York lokuð vegna ísa í 10 daga og sleðafært um mörg sund sem aldrei hafði lagt, áður svo vitað væri.

Benjamin Franklin sá kunni vísindamaður var sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og bjó í París á þessum árum. Um sumarið 1783 og árin þar á eftir skrifaði hann meðal annars.

,,Um sumarið lá þykk bláleit móða yfir, sem skyggði á sólina um alla Evrópu og stóran hluta Norður- Ameríku. Á þessum árstíma þegar geislar sólar eiga að vera sterkastir, voru þeir máttlitlir gagnvart þessari þykku móðu. Sólin sást ekki við sólarupprás í París fyrr en hún var komin í 19° hæð yfir sjóndeildarhringinn, en það stytti þann tíma sem sólar naut um 2 -3 klst yfir daginn. Ef sólargeislum er safnað gegnum safnlinsu stækkunarglers og þeim beint á pappír, brenna þeir gat á hann. En vegna móðunnar voru geislar sólar svo veikir, að væri þeim safnað í brennipunkt á pappir gerðist ekkert. Það örlað varla á á brúnum lit á pappirnum. En hvaðan kom þessi þoka sem lá yfir stórum hluta heims? Ef til vill á hún uppruna sinn utan okkar jarðar, þá helst ryk, frá himinhnetti eða halastjörnu ,sem jörðin hefur fangað.. Líklegra er þó að þessi móða sé komin frá Íslandi, reykur sem streymt hefur frá eldgosi í Heklu og hugsanlega frá því nýja eldfjalli sem reis úr sæ við ísland vorið 1783 og gæti reykur þess hafa borist um allt norðurhvel með vindum.“

Í Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla sem margsinnis hefur gosið frá því sögur hófust, síðast árið 1918. Mikil jökulhlaup hafa fallið niður Mýrdalssand í kjölfar Kötlugosa og ógnað byggðum í nágrenninu. Þá hafa einnig orðið mikil eldgos á sögulegum tíma í Eldgjá í Skaftártungu og í Öræfajökli, auk eldgosa í smærri eldstöðvum.